18. september 2007

Fundarhöld í dag…

Á þriðjudögum er alltaf mikið um fundarhöld hjá mér.  Ég byrja daginn kl.8.00 með bæjarmálahópi Framsóknarmanna hér í Árborg.  Síðan er fundur hjá meirihluta bæjarstjórnar kl. 16.00 og stóð sá fundur til kl. 21.20.

Annars var dagurinn hefðbundinn vinnudagur.

Lesa meira

17. september 2007

Pabbi minn á afmæli í dag.

Í dag 17 september á pabbi minn afmæli.  Hann er nú orðinn 68 ára karlinn, eldhress og frískur.  Við skruppum eftir kvöldmat á Hellu til að hitta foreldra mína.  Áttum notalegt kvöld heima !
Til hamingju með daginn pabbi minn.

Lesa meira

16. september 2007

Sunnudagur í hvíld og friði….

Í dag vorum við heimavið og nutum dagsins í leti.  Strákarnir okkar og Unnur tengdadóttir okkar komu í kvöldmat, en fóru síðan heim til Gústa og Unnar til að æfa fyrir æfmæli pabba síns. 

Lesa meira

15. september 2007

Réttadagur

Við höfum það fyrir venju að fara í Skeiðaréttir og stundum í Tungnaréttir.  Við byrjuðum í Reykjarétt á Skeiðum.  Í dag er frekar kalsalegt, slydda og rok.  Menn voru vel búnir í vatnsgöllum og margur með pela í vasa.  Við fórum síðan upp í Tungur og fengum okkur réttarsúpu í bústaðnum hjá Eyvindi og Guðrúnu í Fellskoti.  Alltaf er súpan hennar Rúnu jafn góð.  Kátt var á hjalla, slegið á létta strengi og tekið lagið.  Í Tungunum var snjókoma og var allt orið hvítt, og þegar við keyrðum frá Fellskoti þá var drjúgt slabb á veginum, við  fórum  niður Skeiðin og voru þá flestir, þó ekki allir, langt komnir á heimleið ríðandi.   Þó voru fjárrekstrar á ferðinni enn og áttu töluvert langt heim.  Við hittum Einar í Egilsstaðakoti og börnin hans við Skálmholt þá snjóaði á þau og var ansi kalt en hitastigið var á núlli.  Við fórum í Kotið og fengum okkur réttarsúpu með húsráðendum og gestum þeirra.  Síðan var sest í stofu og tekið lagið fram eftir kvöldi.  Frábær réttardagur þó að veðrið væri með allra versta móti.

Lesa meira

14. september 2007

Tókum á móti safninu í Reykjarétt.

Við skruppum um kvöldmatarleitið í Reykjarétt að taka á móti safninu af afrétt Flóa og Skeiða.  Af fjalli kom, var mér sagt, nálægt 2000 fjár.  Safnið var seint á ferðinni enda fé, hestar og menn þreytt og slæpt eftir mjög erfiðan dag. 
Fjallmennirnir okkar lentu í miklum raunum í Kálfánni og drukknaði fé í ánni vegna vatnavaxta.  Þessi endir á erfiðustu fjallferð í manna minnum var ömurlegur fyrir mannskapinn, menn voru mjög slegnir vegna þessa atburðar.  En samt voru allir sammála um að mestu skipti að allir menn komu heilir til byggða, en litlu mátti muna á köflum að ekki yrði stór slys í þessum leitum.  Og mikil var raun margra í þessari fjallferð.
Við komum við í Koti á leiðinni heim og fengum okkur kaffi með vinum okkar, Einari og Ellu, börnum þeirra og tengdadóttur.  Gott kvöld með góðum vinum.

Lesa meira

14. september 2007

Afmælisdagur Mumma Meistara.

Í dag á vinur minn Guðmundur Kr. Jónsson afmæli, hann mætti í morgunkaffi eins og svo oft áður á föstudagsmorgni í vinnuna til okkar, en nú mætti hann með tertu með sér í tilefni dagsins.  Til hamingju með daginn kæri vin.

Eftir að við fluttum skrifstofuna höfum við og fyrrum sambýlingar okkar hjá VGK-Hönnun skipst á að hafa kaffi á föstudögum.  Við förum nú á milli húsa sitt hvorn föstudaginn og eigum saman hálftíma allur hópurinn.  Það er gott að halda böndunum sem binda þennan hóp saman lifandi með þessum hætti.  Það er nú í okkur söknuður eftir daglegum samskiptum við fyrrum samstarfsfélaga okkar, en sem betur fer höldum við hópinn ennþá þó ekki sé um dagleg samskipti að ræða.

Þannig að afmæliskaffið hjá Mumma Meistara var fjölmennt í morgun, sennilega 15 manns.

Lesa meira

13. september 2007

13. september, fjallmenn á heimleið.

Í dag var hefðbundinn vinnudagur og var ég í vinnunni fram til kl. 19.00.
Engin fundarhöld voru í dag, þar sem ég sit ekki í bæjarráði lengur.

Mér hefur verið títt hugsað til fjallmanna okkar Sunnlendinga síðustu daga.  Veðrið þessa viku sem þeir hafa verið á fjalli hefur verið alveg ótrúlega slæmt.  Þeir hafa sennilega fengið það versta veður sem hugsast getur í þessari ferð.  Miklir vatnavextir hafa verið á hálendinu og hafa þeir misst fé vegna þeirra.  Menn og hestar hafa lent í miklum raunum og erfiðleikum vegna þessa, kulda, vosbúð og vatnavöxtum.  Þeir eru væntanlegir heim á morgun og verða örugglega  þreyttir og slæptir.

Lesa meira