september 15th, 2007

Réttadagur

Við höfum það fyrir venju að fara í Skeiðaréttir og stundum í Tungnaréttir.  Við byrjuðum í Reykjarétt á Skeiðum.  Í dag er frekar kalsalegt, slydda og rok.  Menn voru vel búnir í vatnsgöllum og margur með pela í vasa.  Við fórum síðan upp í Tungur og fengum okkur réttarsúpu í bústaðnum hjá Eyvindi og Guðrúnu í Fellskoti.  Alltaf er súpan hennar Rúnu jafn góð.  Kátt var á hjalla, slegið á létta strengi og tekið lagið.  Í Tungunum var snjókoma og var allt orið hvítt, og þegar við keyrðum frá Fellskoti þá var drjúgt slabb á veginum, við  fórum  niður Skeiðin og voru þá flestir, þó ekki allir, langt komnir á heimleið ríðandi.   Þó voru fjárrekstrar á ferðinni enn og áttu töluvert langt heim.  Við hittum Einar í Egilsstaðakoti og börnin hans við Skálmholt þá snjóaði á þau og var ansi kalt en hitastigið var á núlli.  Við fórum í Kotið og fengum okkur réttarsúpu með húsráðendum og gestum þeirra.  Síðan var sest í stofu og tekið lagið fram eftir kvöldi.  Frábær réttardagur þó að veðrið væri með allra versta móti.