Um mig

Ég heiti Margrét Katrín Erlingsdóttir,  eiginmaður minn er Jónas Rafn Lilliendahl og eigum við þrjá syni, eina tengadóttir og tvær sonardætur.

Ég gekk í grunnskólann á Hellu á Rangárvöllum, var nemandi í Tónlistaskóla Rangæinga lærði þar á gítar, trompet og dálítið á píanó. Ég spilaði í Lúðrasveit Tónlistaskólans í tvö ár.   Ég fór í framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Selfoss 1980 og þaðan í nýstofnaðan Fjölbrautarskóla Suðurlands. Ég hóf nám í Háskólanum í Reykjavík haustið 2001 og lauk prófi sem viðurkenndur bókari.  Að námi loknu hóf ég rekstur á eigin bókhaldsstofu á Selfossi, Hjá Maddý ehf.
 
Ég er fædd þann 4. mars 1962 á Hellu á Rangárvöllum og alin þar upp. Ég flutti á Selfoss 18 ára til aðfara í nám. Til stóð að vera hér í tvö ár og ljúka verslunarprófi, árinu hafa nú orðið nokkuð fleiri þar sem að ég hef búið hér síðan. Foreldrar mínir eru Erlingur Guðmundsson f. 1939 vörubifreiðastjóri og þúsundþjala smiður og Sigurvina G. Samúelsdóttir f. 1937, verslunarstjóri í eigin verslun á Hellu „Hjá Vinsý“.   Ég á fjögur systkini. 
 
Áhugamál

Áhugamálin eru nú mörg og margvísleg. Ég hef stundað hestamennsku frá barnsaldri og er það sameiginlegt áhugamál margra í okkar stórfjölskyldu.  Við ferðumst á hestum á sumrin og njótum þess að vera með fullt hús af hestum á vetrum.   Einnig hef ég mjög gaman af handbolta en strákarnir mínir spiluðu alltaf handbolta og hafði ég gaman af að fylgjast með þeim.   Ég hef mikinn áhuga á hundum og hundarækt og eigum við hjónin tvær týkur.  Tónlistarlíf er mikið á okkar heimili og höfum við alið drengina okkar upp í tónlist og stundum er kátt á hjalla þegar allir eru sestir niður með hljóðfærin sín og tónlistin ómar um húsið.

Einnig hef ég alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum innanlands og hefur fjölskyldan ferðast mikið um landið okkar Ísland. Seinni árin höfum við hjónin verið að ferðast töluvert erlendis líka og höfum þá oftast reynt að skoða nýja staði. Við fórum til dæmis til Kanada 2005 á slóðir vestur íslendinga og framundan er ferð til Nuuk á Grænlandi sumarið 2007.

Skógrækt er eitt af því sem að ég hef dundað mér við í gegn um árin og hef aðstoðað foreldra mína við skógrækt í reit fjölskyldunnar í Rangárþingi.  Eftir að við fluttum í Tjarnabyggð höfum við verið dugleg að setja niður tré og er skemmtilegt að fylgjast með hvað þau stækka og dafna með hverju ári.

Árið  2002 fór ég í  pólitík og sat í bæjarstjórn Árborgar til vors 2010.  Ég hafði gaman af að starfa fyrir sveitarfélagið í þessi ár, en það er líka gott að vera hætt og hafa tíma fyrir fjölskyldu og vini.