Fyrirtækið

Hjá Maddý sf. er bókhalds og ráðgjafaþjónusta. Fyrirtækið stofnaði ég í júní 2002 en þá hætti ég að starfa hjá PricewaterhouseCoopers hér á Selfossi.  Árið 2009 breytti ég félaginu í einkahlutafélag og heitir stofan nú Hjá Maddý ehf.

Starfsemin hófst á Eyrarvegi 25 í húsnæði Sunnlenska Fréttablaðsins, þar leigði ég 12 fermetra bakherbergi hjá Bjarna Harðarsyni. Þar var lagður góður grunnur af framhaldinu, en í upphafi var tilgangurinn sá að hafa létta vinnu með starfi mínu sem bæjarfulltrúi í Árborg.
 
Ég hafði á þessum tíma 4 fyrirtæki sem ég þjónustaði úti í bæ, en hugsaði mér að hafa þetta herbergi hjá Bjarna til að vinna í frekar en að vera að vinna heima. Hugsunin var að hafa vinnu í þrjá daga í viku og þá hefði ég nægan tíma til að sinna starfi bæjarfulltrúans. Þegar ég hafði verið við störf í einn mánuð og aldrei komist út úr herberginu þar sem að viðskiptavinunum fjölgaði mjög ört sá ég að fyrri hugmynd var sennilega ekki raunhæf.
 
Í október sama ár réð ég fyrsta starfsmanninn, Magný Rós Sigurðardóttur. Við fluttum síðan í desember 2002 í hús Árvirkjans að Eyravegi 29 í tvö skrifstofuherbergi. Í maí 2003 réð ég annan starfsmann Ólafíu Ingólfsdóttur og þá var nú aftur orðið þröngt um okkur.
 
Á sömu hæð leigði Hönnun verkfræðistofa og myndaðist strax gott samband milli starfsmanna þessara fyrirtækja. Í lok árs 2003 tókum við á leigu sameiginlegt rými hinu meginn við ganginn sem var innréttað að okkar þörfum. Við fluttum í það í janúar 2004 og rákum þar bæði fyrirtækin í opnu rými.
 
Nú hafa orðið breytingar í rekstri fyrirtækisins og stórt skref verið stigið.  Við höfum fjárfest í húsnæði að Eyravegi 27 neðri hæð og erum því komin í eigið húsæði.  Skrifstofurýmið stækkar því  í 108 fermetra.  Við fluttum þann 8. ágúst sl. 2007 og er húsnæðið bæði bjart og skemmtilegt.
 
Hjá fyrirtækinu starfa í dag auk mín þær  Edda, Jóna og Magný Rós. Starfsemin eflist með hverjum degi og er það vel.
 
Samstarf við verkfræðistofuna (Hönnun)  Mannvit og samband við starfsmenn þeirra er einstakt. Vinátta starfsmanna er góð og má segja að um einn starfsmannahóp sé að ræða ennþá þó að við séum nú í sitthvoru húsinu en þó hlið við hlið.  Við hittumst alltaf á föstudagsmorgnum og drekkum saman morgunkaffi.
 
Við segjum “þar sem bókhald og verkfræði koma saman nálgast nákvæmnin fullkomnun“