október 19th, 2006

Sérstakar húsaleigubætur í Árborg.

 

Fallið hefur verið frá frestun á sölu á 9 félagslegum leiguíbúðum sem ákvörðun var tekin um að selja á síðasta kjörtímabili. Fyrri bæjarstjórn tók ákvörðun um að selja 11 íbúðir, tvær voru seldar fljótlega eftir að sú ákvörðun var tekin en frestað var að selja hinar 9 um tíma. Nú hefur verið fallið frá þeirri frestun og ákveðið er að þessar íbúðir fari í sölu þegar þær losna sem getur tekið einhverja mánuði eða einhver ár. Til að koma til móts við þá sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og eru í brýnustu þörfinni hefur verið tekin ákvörðun um að taka upp sérstakar húsaleigubætur frá 1. janúar 2007.

Fallið hefur verið frá frestun á sölu á 9 félagslegum leiguíbúðum sem ákvörðun var tekin um að selja á síðasta kjörtímabili. Fyrri bæjarstjórn tók ákvörðun um að selja 11 íbúðir, tvær voru seldar fljótlega eftir að sú ákvörðun var tekin en frestað var að selja hinar 9 um tíma. Nú hefur verið fallið frá þeirri frestun og ákveðið er að þessar íbúðir fari í sölu þegar þær losna sem getur tekið einhverja mánuði eða einhver ár. Til að koma til móts við þá sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og eru í brýnustu þörfinni hefur verið tekin ákvörðun um að taka upp sérstakar húsaleigubætur frá 1. janúar 2007.

Hverjir eiga rétt.

Þeir sem rétt eiga til sérstakra húsaleigubóta eru þeir sem eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og erum metnir með 9-12 stig eftir matskerfi sveitarfélagsins. Um 1/3 af þeim sem eru á biðlista munu eiga kost á þessum bótum, það eru þeir sem eru í brýnustu þörfinni eftir félagslegu leiguhúsnæði. Þeir sem eiga rétt hafa um að velja að þiggja bæturnar eða að vera áfram á biðlista. En ekki er hægt að vera á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði ef maður þiggur sérstakar húsaleigubætur.

Bótafjárhæð.

Sérstakar húsaleigubætur verða að hámarki 75% af leigufjárhæð en hámark húsaleigubóta verður kr. 60.000- . Hámark húsaleigubóta er í dag kr. 25.000- og hámark sérstakra húsaleigubóta verður kr. 35.000- eða alls kr. 60.000-.

Biðlistar.

Í flestum sveitarfélögum eru biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði og er það eins hér í Árborg. Ekki verður séð að hjá biðlistum verði komist, en sérstakar húsaleigubætur koma til með að stytta þá verulega. Ekki er fyrirsjáanlegt að betri lausn sé til staðar fyrir þá aðila sem eru í brýnustu þörfinni eftir félagslegu leiguhúsnæði þar sem ekki hefur verið á döfinni í mörg ár að fjölga félagslegum leiguíbúðum hjá sveitarfélaginu. Um næstu áramót verður þessum aðilum gefinn kostur á að þiggja sérstakar húsaleigubætur og mun það létta þeim verulega að leigja á almennum markaði. Þessir aðilar hefðu annars verið á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, en það getur tekið marga mánuði eða jafnvel ár að fá félagslega leiguíbúð, það fer allt eftir því hvenær íbúðir losna úr leigu.

Ráðgjöf í húsnæðismálum.

Með tilkomu Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar hefur ráðgjöf í húsnæðismálum eflst. Tilgangurinn með ráðgjöf í húsnæðismálum er meðal annars sá að aðstoða þá sem búa í félagslegu leiguhúsnæði við að eignast sitt eigið húsnæði. Félagslegt leiguhúsnæði er úrræði til að leysa tímabundinn vanda þeirra sem þar búa þó vissulega séu til undantekningar í því sem öðru.

Sveitarfélagið Árborg er ört stækkandi sveitarfélag sem veitir íbúum sínum þjónustu í fremstu röð og eru sérstakar húsaleigubætur kærkomin viðbót við hana.

 

Margrét K. Erlingsdóttir

Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og Varaformaður Bæjarráðs Árborgar.