október 24th, 2008

Loksins sett færsla á síðuna…margt gerst síðan síðast.

Jæja nú er kominn tími til að segja fréttir af fjölskyldunni Lilliendahl sem er flutt í Tjarnabyggð í Sandvíkurhrepp hinum forna.

Nýja húsið:
Við fluttum í nýja húsið í Tjarnabyggð þann 6. september sl.  Við fluttum inn í hálf karað hús…eða þannig…hálf málað…ekkert í eldhúsinu…bara vatn í bílskúrnum…hálf flísalagt…ekkert baðker…en við höfðum þó klósett.  En samt var þetta ekkert mál fannst okkur.  Við fluttum á laugardaginn 6 september og nutum góðrar hjálpar fjölskyldu og vina.  Á svona dögum sér maður ríkidæmi í vinum og fjölskyldu sem maður gleymir svo oft að huga að.   Frábær dagur og allt gekk upp.  Nú er húsið nær tilbúð smávegis eftir í frágangi á rafmagni.  Við eigum þó nokkuð í land við að koma okkur fyrir en það kemur smátt og smátt.  Okkur líður mjög vel í nýjum heimkynnum og er vel rúmt um alla.  Húsið er nær helmingi stærra en gamla húsið, hér eru 3 svefnherbergi, tvö salerni, stærðar fataherbergi og miðrými með eldhúsi og stofu.  Við erum með arin í stofunni sem er notalegt að sitja við á kvöldin.  Útsýnið er alveg ótrúlegt, eins og maður sitji inni í miðju málverki.    Sem sagt frábært að búa í Tjarnabyggð.

Hesthúsið:
Grunnurinn undir hesthúsið var steyptur rétt á eftir hús sökklinum og stóð til að byggja hesthúsið og skemmuna í ágústlok.  Hestagerðið var sett upp um mitt sumar.  En eins og allir vita varð Suðurlandsskjálfti þann 29 maí sl. og fórum við ekki varhluta af honum við hesthúsbygginguna.  Þegar leið á sumar var skemmdir á sökklinum meiri og meiri, sprungur mynduðust og skekkja í veggjum.  Púðinn undir honum gaf sig við eitt hornið og endaði þetta með að kallaðir voru til verkfræðingar Viðlagatryggingar hingað um miðjan september.  Grafnar voru prufuholur með sökklinum og hann hæðarmældur, þá kom í ljós að hann var að síga í annan endann og var hæðarmunurinn orðinn 7,5 cm sem er nú bara töluvert.  Niðurstaða fræðinganna var " ÓNÝTT"  hingað mættu því stórvirkar vinnuvélar frá Vélgröfunni og farið var að brjóta og fjarlægja sökkulinn.  Síðan var farið að grafa upp púðann og kom þá í ljós gjá sem hafði myndast undir einu horninu  sem var tveggja metra djúp og um fjögra metra breið.  Ótrúlegt að sjá þetta, ekki er vitað hvort um varð að ræða sprungu eða hellir sem hefur verið í hrauninu undir sökklinum.  En fall er fararheill segjum við hér….og sl. föstudag var steyptur nýr sökkull og verður farið að keyra í hann í næstu viku.  Starfsmenn Eðalhúsa hafa staðið sig frábærlega í þessu máli eins og öllum sem að okkur hafa komið.

Strákarnir:
Erlingur Örn er í Háskólanum í Reykjavík á þriðja ári í Hátækni verkfræði.  Hann var að vinna í sumar hjá Orkuveitunni og líkaði honum það mjög vel.  Hann stefnir nú á masternámi í orkufræðum í Stokkhólmi í Svíðþjóð.  Erlingur er á fullu í líkamsrækt, hann spilar skvass, lyftir og dansar tvö – þrjú kvöld í viku.  Síðan kennir hann dans eitt kvöld.  Hann stendur sig frábærlega í skólanum og hefur á þessu hausti séð fyrstu tíuna í  verkfræðinni, auðvitað erum við svo montinn með strákinn okkar.
Gústaf, Unnur og Dísella María.   Litla fjölskyldan okkar stendur sig vel og dafnar Dísella litla vel.  Hún er nú orðin sex og hálfsmánaðar gömul.  Hún er efnisstúlka, brosmild, glöð og vær.   Gústaf er á lokaönn í Iðnskólanum í Reykjavík í háriðn.  Hann stefnir á sveinspróf í janúar.  Unnur er í fæðingaorlofi en fer síðan í Iðnaskólann í janúar.  Hún á eftir tvær annir en þá fer hún í sveinspróf í háriðn eins og Gústi.  Litla fjöskyldan flutti búferlum núna í október, en þau hafa búið í eigin íbúð við Álftarima á Selfossi.  Nú fluttu þau í skjól föður afa og ömmu Unnar í Leirvogstungu í Mosfellsbæ.  Þau fluttu inn í hús sem afi hennar og amma eiga og er það við hliðina á húsinu sem þau búa í.  Við söknum þeirra allra auðvitað strax en erum samt glöð fyrir þeirra hönd og fegin að vita að þau þurfa ekki að keyra daglega yfir fjallið í skólann.  Litla fjölskyldan okkar er dugleg að bjarga sér og erum við svo stolt af þeim. 
Marinó Geir flutti með okkur í Tjarnabyggðina.  Hann ákvað að taka sér frí frá námi í vetur þar sem hann komst ekki inn í tónlistanám í FÍH í Reykjavík.  Hann er að vinna í Mjólkurbúinu með pabba sínum.  Hann er auðvitað alltaf á ferð og flugi pilturinn, spilar á skemmtunum og skemmtir sér eins og aðrir ungir menn.  Hann spilar alltaf í Stuðlabandinu og eru þeir alveg þræl góðir strákarnir. Hann er duglegur og heiðarlegur ungur maður sem við erum mjög stolt af.

Hestarnir:
Við erum búin að vera með alla hestana okkar hér í allt sumar en fórum með þá í haust og vetrarbeit þann 11. október sl. að Stóru Reykjum til Gísla og Jónínu sem ætla að hugsa um þá fyrir okkur í vetur.  Við héldum þremur merur og eigum von á folöldum undan, Tjörva frá Sunnuhvoli, Pilti frá Spreðli (vonandi) og Takti frá Tjarnarlandi.  Spennandi vor framundan.

Hundarnir:
Indý litla flutti auðvitað með okkur í sveitina og varð henni nú aðeins um flutningna.  Við höfðum velt því verulega fyrir okkur að reyna að fá fullorðinn hund til að vera með henni í sveitinni.  Nú skreppur maður ekki heim í hádeginu eins og ég gerði á Selfossi.  Það er langur tími fyrir ungan hund að vera einn heima í 8 til 9 tíma á dag.  Lánið var með okkur eina ferðina enn og fengum við 10 ára gamlan Border Collý hund sem ber nafnið Flóki.  Flóki og Indý urðu strax miklir vinir,   Flóki er alveg einstakur hundur, algjör höfðingi,  hann leikur sér við Indý eins og þau séu jafnaldrar.   Nú er mikið léttara hjá henni að vera heima á daginn þar sem hún hefur félagskap.  Frábærir hundar Indý og Flóki.  Ég fór með Indý á sýningu í lok september og fékk hún aftur fyrstu einkunn.  Ég er hreinlega farin í hundana….held ég.

Maddý og pólitíkin:
Ég er nú í fríi sem bæjarfulltrúi um tíma.  Það hafa orðið miklar breytingar hjá mér í fyrirtækinu en frænka mín hún Magný Rós sem hefur fylgt mér frá upphafi og verið mín hægri hendi, ákvað að breyta til og fara í nám nú í haust.  Hún hefur í þessi ár gert mér mögulegt að vera í pólitíkinni en nú er þannig komið að ég verð að bretta upp ermarnar og fara að vinna vinnuna mína.  Ég er þó alltaf með mínu fólki vikulega, er formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu og Tónlistaskóla Árnessýslu.  Síðan er ég formaður bygginganefnar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og hef verið að vinna í hóp um uppbyggingu reiðvega.

Þetta er svona snöggt yfirlit um störf fjölskyldunnar síðustu vikur.