ágúst 18th, 2007

Bíltúr um uppsveitir Árnessýslu

Í dag fórum við hjónin í bíltúr upp um allar sveitir Árnessýslu.  Við keyrðum upp Grímsnes og virtum fyrir okkur alla sumarhúsabyggðina sem þar er orðin.  Á sumum stöðum er byggðin svo þétt að styttra er í næsta hún en í þéttbýli.  En vissulega er fegurðin óumdeilanleg í Grímsnesinu.  Við keyrðum í Reykholt og skoðuðum nýju hverfin sem hafa byggst upp þar.  Frábært að sjá hve blómlegar byggðir eru víða í Bláskógabyggð.  Við keyrðum yfir gömlu brúna við Tungnarétt og keyrðum upp að Kjarnholtum og þaðan yfir að Geysi.  Frá Geysi fórum við yfir hjá Brúarhlöðum og að Flúðum sem er eitt af þessum blómlegu fallegu byggðum í uppsveitum.  Næst lá leiðin upp í Þjórsárdal.  Við keyrðum upp með Þjórsá og reyndum að gera okkur grein fyrir hvernig liti út á þessum slóðum ef heimilað verður að virkja í neðrihluta Þjórsár.  Ótrúleg hugmynd að láta sér detta í hug að sökkva landi í byggð……
  

Þegar maður keyrir um sveitir Suðurlands nú síðsumars og skoðar gróðurinn þá er eins og sé komið fram á haust.  Grasið farið að gulna í vegköntunum og grastopparnir í sandöldunum í Þjórsárdal eru horfnir í þurrkinum.  Ég hef verið að velta fyrir mér hvernig landið kemur undan vetri næsta vor þegar gróðurinn hefur skrælnað í þurrki sumarsins. 

Landið á þessu svæði er víða mjög sendið og er grasrótin mjög grunn þannig að sú litla væta sem komið hefur í sumar hefur lítið gagn gert og jarðvatnið víða nær ekkert.