júní 30th, 2007

Hlaupið eftir hrossum og litið á foreldrana…

Um hádegisbilið fórum við að Stóru Reykjum að sækja Hélu til að koma henni í girðingu hjá graðhesti.  Yfirleitt getum við gengið að hrossunum okkar í haganum án vandræða.  En svo var nú ekki að þessu sinni.  Héla kastaði 16 júní merfolaldi sem nefnt hefur verið Stúlka, þær létu okkur hafa töluvert fyrir sér að þessu sinni.  Hryssurnar okkar eru oft styggar  þegar þær eru með folöldum og þá er eins gott að vera léttur á fæti til að hlaupa á eftir þeim.  Sú var raunin nú en við eltum þær um mýrarnar og tók okkur drjúgan tíma að koma þeim heim.

Við skruppum síðan á Hellu og litum við í Gulllandinu hjá mömmu og pabba, fengum kjötsúpu og tilheyrandi.  Jónas og pabbi járnuðu einn hest og síðan var setið að spjalli fram að miðnættinu.  Það sér töluvert á landinu hjá þeim í þessum miklu þurrkum sem verið hafa síðustu vikur og eru túnin farin að gulna á blettum.  Jarðvegurinn er mjög sendinn þannig að hann þolir ekki svo mikla þurrka án þess að á sjái.   Inga systir, Helgi Jens, Birta Rós og Ásta Sól komu líka í kvöldkaffi.  Birta Rós er mikill aðdáandi Harrys Potter og fórum við frænkurnar yfir hans mál saman.