janúar 15th, 2006

Nokkur atriði í aðalskiplagi Árborgar.

 

Ein af nýjungunum í skipulagi sveitarfélagins er Búgarðabyggð. Búgarðabyggð er staðsett í útjaðri Selfoss, í Háreyrarmýri ofan Eyrarbakka, í Stokkseyrarmýri ofan Stokkseyrar, landsspilda er í Kaldaðanesi og í Stokkseyrarseli.

Búgarðarbyggð er skilgreind með öðrum hætti en landbúnaður, ekki er gert ráð fyrir að landbúnaði með framleiðslurétti en þó er heimiluð atvinnustarfsemi tengd landbúnaði. Reiknað er með að lóðir verði 1 – 5 hektarar, og þar megi reisa vegleg íbúðarhús, hesthús eða húsnæði fyrir ýmis konar húsdýrahald. Með þessu móti er mætt miklum áhuga fyrir því að búa í dreifbýli en samt í nánd við þéttbýli. Í dag eru margir sem vilja eiga hesta eða önnur húsdýr og búa þannig að þeir geti haft dýrin sín nálægt sér. Áhugi á þessum svæðum er mikill og margir hafa haft samband til að fá upplýsingar um hvenær byrjað verði að úthluta í Búgarðabyggðinni.

Í núgildandi skipulagi er frístundabyggð norðan Ölfusár á Selfossi og austast á Stokkseyri við Ísólfsskála, í nýju aðalskipulagi er bætt við nýrri byggð við Skjóldal austan Stokkseyrar. Það sem er nýtt í þessu aðalskipulagi er að frístundabyggðin er sýnd sem blönduð svæði frístunda og íbúðabyggðar. Nú gefst þeim sem eiga frístundahús á þessum svæðum tækifæri til breyta þeim í íbúðarhúsnæði, ef þau uppfylla kröfur sem gerðar eru til þess, og eiga þar heilsársbúsetu með lögheimili.

Reiðstígar hafa verið skilgreindir um allt sveitarfélagið, þéttbýliskjarnarnir eru tengdir saman með þeim. Með heilstæðu skipulagi reiðstíga er búið að opna marga möguleika fyrir þá fjölmörgu sem stunda hestamensku í Árborg, einnig er nú hægt að vinna að markvissri uppbygginu reiðstíga í samstarfi við Hestamannafélög á svæðinu. En Hestamannfélög hafa möguleika á að sækja um fjárveitingu í reiðvegasjóð Vegagerðarinnar sem er ætlað að fjármagna reiðvegi, og sérstakar fjárveitingar eru eyrnamerktar í sjóðnum til að búa til reiðvegi sem færa reiðvegi frá akvegum

Göngustígar sem hafa verið settir markvisst inn í skipulagið, þar hafa þéttbýlikjarnarnir líka verið tengdir saman. Stígar fara um mýrarnar í dreifbýlinu frá Selfossi til strandbyggðanna, ásamt því að fara til Selfoss með Eyrarbakkavegi frá strandbyggðunum. Einnig er stígur með ströndinn sem tengir saman Eyrarbakka og Stokkseyri.

Það er auðvitað gert ráð fyrir lóðum undir leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu. Lóð er fyrir nýjan grunn- og leikskóla í Fosslandi, lóð undir leikskóla er í Suðurbyggð og lóðir Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa verið stækkaðar og passað að þrengja ekki að þeim til að möguleiki sé á að byggja við skólahúsin. Vinnuhópur hefur verið starfandi um framtíðarhúsnæði skólans við ströndina og er væntanleg skýrsla um þá vinnu innan tíðar. En á íbúaþingum sem haldin voru fyrir gerð aðalskipulags kom skýrt í ljós hjá íbúum þorpanna við ströndina að mikilvægt væri að skólahald væri í báðum þorpum.

Eitt af stærstu málum aðalskipulagsins það er staðsetning á nýrri brú yfir Ölfusá sem hefur verið á aðalskipulagi Selfoss frá því 1970 og er nú í þessari tillögu á sama stað eða yfir Efri Laugardælaeyju. Fullt samkomulag hefur verið milli Hraungerðishrepps og Sveitarfélagins Árborgar um staðsetningu brúarinnar yfir Efri Laugardælaeyju, enda hefur Vegagerð ríkisins lagt áherslu á þessa leið um áratuga skeið. Á auglýsingarferli skipulagsins barst engin athugasemd frá Vegagerð ríkisins við staðsetningu brúarinnar, þó að þeir hafi í viðræðum lagt til að farið yrði yfir gamla ferjustaðin við Laugardæli. Mikilvægt er berjast áfram fyrir því að koma nýrri brú inn á vegaáætlun.