desember 31st, 2005

Litið yfir farinn veg um áramót, fyrsti hluti

 

Pólitíska árið hefur verið mjög annasamt hjá bæjarfulltrúum í Árborg eins og reyndar kjörtímabilið allt. Þegar við komum að voru mörg mál sem taka þurfti á og byggja upp víða. Má þar til dæmis nefna nýjan grunnskóla í Suðurbyggð, sniðræsi, uppbygging íþóttamannvirkja og fleira og fleira. Margt hefur verið gert á síðustu árum til hagsbóta fyrir íbúana.

 

Árið hefur verið sveitarfélaginu Árborg heilladrjúgt, íbúaþróun hefur verið svo mikil að vart hefur verið hægt að hafa undan í þjónustu við íbúana þó að allt hafi verið gert til að bregðast við með sem bestum hætti. Það sem mestum erfiðleikum hefur valdið eru leikskólamálin, einnig hefur þessi gífulega ásókn í lóðir á Selfossi gert okkur erfitt fyrir í að hafa við í framboði þeirra, málefni aldraðra og þjónusta við þá hefur líka verið ofarlega á döfinni og barátta fyrir hjúkrunarheimili við ríkisvaldið.

Í leikskólum sveitarfélagsins er unnið metnaðarfullt starf og yfirstjórn leikskólamála hefur haft í mörg horn að líta síðustu mánuði. Í febrúar sl. átti Bæjarráð, sem ég sat í á þeim tíma, fund með leikskólanefnd og leikskólafulltrúa þar sem farið var markvisst yfir stöðu mála. Farið var yfir hve mörg börn væru á biðlista, hve mörg í elsta árgangi leikskólans færu í grunnskóla, hve mörg börn kæmust inn í leikskólann og allt sem að málinu kom. Útlitið var alls ekki slæmt, en þó fannst okkur það ekki fullnægjandi þar sem útlit var fyrir að 7 – 10 börn kæmust ekki inn í leikskóla í sveitarfélaginu miðað við þá íbúaþróun sem hafði verið árið 2004 í Árborg. Við vorum þó með nokkur pláss í leikskólanum í Þingborg og gátum haft þau áfram þannig að allir fengju vistun á haustdögum. Af þessum ástæðum var ákveðið að bjóða nýjan leikskóla út á árinu sem tekinn yrði í notkun 2006, sex deilda skóla sem byggja ætti í tveimur áföngum. Þegar ljóst var í sumar að börnum á biðlista hafði fjölgað gífurlega var ákveðið að bjóða út allan skólann eða sex deildir í einu. Enginn gat sagt fyrir um að aðstæður breyttust eins og raunin hefur verið. Til að koma til móts við ástandið var ákveðið að setja upp bráðabirgðahús við tvo leikskóla Árbæ og Álfheima. Allir vita hver saga þess máls er, mikið hefur verið skrifað og sagt. Við tókum ákvörðun um að leigja gámahús sem verið er að setja upp um allt land, þetta gerðum við í góðri trú að við værum að leysa þennan vanda. En því miður endaði það mál frekar illa, en fyrir mitt leiti hef ég verið eigendum SG húsa þakklát fyrir að upplýsa mig um þætti í málinu sem mér var ekki kunnugt um. Það er alveg ljóst frá minni hendi að aldrei var ætlunin að setja niður hús sem stæðust ekki reglugerðir til að hýsa börnin okkar, sem eru vissulega framtíð sveitarfélagins og eiga einungis fullnægjandi aðstæður skilið. En sem betur fer er að hilla undir farsæla lausn í málinu og verða nýju deildirnar teknar í notkun í febrúar og mars n.k. inn í þær deildir komast 56 börn. Síðan verður nýji leikskólinn tekinn í notkun 1. desember 2006 sex deildir og rými fyrir 135 börn. Að mínu mati tel ég rétt að strax við opnun hans verði tekin skóflustunga að næsta leikskóla í Suðurbyggð þriggja til fjögurra deilda sem tekinn yrði í notkun síðla árs 2007.

Skólamálin hafa að mínu mati gengið vel og hefur verið mikill metnaður hjá starfsmönnum grunnskólans til að gera allt sem í þeirra valdi er til að gera skólastarfið betra. Við rekum þrjá grunnskóla, Vallaskóla, Sunnulækjarskóla og Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Mikil þróunarvinna er unnin í skólunum öllum, sífellt verið að gera betur. Bæjarstjórn hefur verið gagnrýnd á árinu fyrir niðurskurð til skólanna við fjárhagsáætlunargerð 2005. Ekki get ég nú verið sammála þessum fullyrðingum þar sem ekki var um niðurskurð að ræða heldur höfnun á ítrustu óskum um fjárveitingar. Ef skoðaðar eru fjárveitingar til skólanna kemur í ljós að um auknar fjárheimildir er að ræða til starfsins. Aftur á móti var ákveðið að hægja aðeins á endurbótum innanhús á Sólvöllum þar sem miklar endurbætur hafa farið fram síðustu ár. Ég fór um skólann nú rétt fyrir jólin ásamt skólanefnd og skólastjóra, þvílíkar breytingar sem átt hafa sér stað þar frá því 2002. Húsnæði skólans er vart þekkjanlegt frá því sem var. Mikið hefur verið endurnýjað að búnaði og húsgögnum auk innan- og utanhúss endurbóta. Á árinu fór af stað hugmyndavinna um framtíðarskipan húsnæðismála skólans við ströndina, mjög skemmtilegt starf en niðurstöður vinnuhópsins munu koma fram á næstu vikum. Skólarnir við ströndina búa við mikinn húsnæðisvanda þar sem kennt er í báðum þorpum í all mörgum húsum. Sem dæmi má segja frá að íþróttir og tölvukennsla allra fer fram á Eyrarbakka, meðan sund, smíði og heimilisfræði eru kenndar á Stokkseyri, það gefur auga leið að um mikla erfiðleika getur verið að ræða þegar koma þarf börnum á milli staða í þessar greinar. Ég á mér þann draum að gerð verði góð aðstaða í báðum þorpum fyrir þá árganga sem þar stunda nám, 1.-5.bekkur á Stokkseyri og 6.-10. á Eyrarbakka þannig að einungis þurfi að keyra í sundkennslu á Stokkseyri. Hjarta hverrar byggðar er skólinn og því tel ég að mestu máli skipti fyrir byggðirnar við ströndina að þar sé starfandi grunnskóli í báðum þorpum. Sunnulækjarskóli er litla barnið í hópnum en stendur vel undir þessu bjarta og fallega nafni sem skólinn ber. Af starfi skólans skín birta og mikil ánægja er með starf hans. Starfsmenn skólans hafa náð ótrúlegum árangri í nýjum kennsluháttum á stuttum tíma, metnaður er mikill og samhljómur starfsmanna gerir þeim þetta kleift. Ég fór í haust með Thormod Vågsnes varaforseta bæjarstjórnarinnar í Arendal, vinarbæ Selfoss, í skólann til að sýna honum starfsemi hans. Hann var mjög hrifinn og hafði á orði að senda starfsmenn frá Arendal til að skoða skólann og kynna sér starfsemi hans. En skólinn hefur fengið margar góðar heimsóknir, meðal annars hefur forsætirsráðherra Halldór Ásgrímsson heimsótt hann og lýsti yfir á fundi að starfsemi skólans væri það merkilegasta sem hann hefði séð í Árborg í þessari heimsókn. Ég sem formaður skólanefndar þetta kjörtímabil er mjög stolt af skólunum okkar og því starfi sem fer þar fram.