ágúst 22nd, 2007

Helstu ályktanir 13 Landsþings Framsóknarkvenna.

Á þinginu voru samþykktar ályktanir og eru þessar þær helstu;

Afnám launaleyndar


Landsþing framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 18. ágúst hvetur ríkisstjórn Íslands eindregið til að samþykkja frumvarp um endurskoðun jafnréttislaga sem er til umsagnar. Þar kemur fram að atvinnurekanda verði óheimilt að gera það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör. Mikilvægt er að afnema launaleynd þar sem rannsóknir sýna að þar sem launaleynd ríkir sé kynbundinn launamunur meiri en þar sem launaleynd er ekki til staðar.

Fjölgun kvenna í stjórnun og æðstu stöður


Landsþing framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 18.ágúst skorar á fyrirtækin í landinu að fjölga konum í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum. Sýnt hefur verið fram á að í fyrirtækjum þar sem konur eru til staðar í stjórnunar- og æðstu stjórnunarstöðum er arðsemi mun hærri og ávöxtun hlutafjár mun betri en í fyrirtækjum þar sem allar stjórnunarstöður eru mannaðar karlmönnum.


Uppbygging nýs fangelsis


Landsþing framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 18. ágúst telur það rannsóknarefni hve slaklega hefur verið staðið að fangelsismálum á Íslandi. LFK skorar á dómsmálaráðherra að taka sér tak og tryggja uppbyggingu nýs fangelsis. Fangelsið verði deildarskipt þar sem verði meðal annars gæsluvarðhalds-, afeitrunar-, meðferðar-, kvenna- og sjúkradeild.


Útrýma skal kynbundnum launamun


Landsþing framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 18. ágúst skorar á atvinnurekendur og stéttarfélög að útrýma kynbundnum launamun í næstu kjarasamningum. Ljóst er að vinnumarkaðurinn á Íslandi er kynjaskiptur og stéttir kvenna eru að jafnaði með 18% lægri laun en karlar. Jafnframt að horft verði sérstaklega til kjara umönnunarstéttanna og kennarastéttanna í ljósi mönnunarvanda og atgervisflótta.


Konur hafi val að loknu fæðingarorlofi


Landsþing framsóknarkvenna haldið í Reykjavík 18. ágúst hvetur sveitarstjórnir til þess að sjá til þess að allir leikskólar á þeirra vegum hafi tækifæri til að taka við börnum þegar fæðingarorlofi lýkur. Rannsóknir benda til að konur fari ekki út á vinnumarkaðinn eftir fæðingu barna sinna vegna. Nauðsynlegt er að konur hafi val til að leita út á vinnumarkaðinn að loknu fæðingarorlofi.