ágúst 24th, 2007

Ferðasaga Grænland, annar hluti

 

24. Ágúst 2007.

Við fórum á fætur um kl. 7.00 og ég fann til morgunkaffið fyrir okkur sem bjuggum í flugfélagsíbúðunum. Veðrið er milt, blanka logn en þungt yfir og ekki er hitastigið hátt. Atli og Ittu sonur hans komu til okkar um 7.45 og tilkynntu að sigling væri framundan, veður væri gott og sléttur sjór.

Við komum að smábátahöfninni rúmlega átta, þar beið okkar Eigil vinnufélagi Atla en hann ætlar að sigla með okkur. Hann var á þó nokkuð stórum bát, svona húsbílabát, sem bar nafnið Annuiqak. Lagt var úr höfn og siglt út Nuuk fjörðinn, fjöllin eru tignarleg þó að topparnir séu huldir skýjum. En tilfinningin er dásamleg, vera komin út á sjó og sjá landið frá allt öðrum sjóndeildarhring. Landið er að mestu klappir og virðist gróður vera af skornum skammti, þó hann sé töluverður á köflum. Ekki var mikil umferð báta á þessum föstudagsmorgni enda flestir í vinnu, en Atli hafði á orði að seinnipartinn yrði fjörðurinn eins og Laugavegurinn svo mikil væri umferð báta. Við sigldum milli skerja og smáeyja í rúmlega klukkutíma á 20 hnúta hraða eða þar til við komum að litlu Narssaq, sem er einn af þessum litlu smábæjum sem lagst hafa í eyði, en upp úr 1970 var fólkið flutt til Nuuk í blokkir sem danska stjórnin skaffaði þeim, en því miður hafði þetta fólk ekkert val.

Eigil sigldi alveg að landi og við stukkum í land öll nema skipperinn og Ittu en þeir höfðu séð sel og ætluðu að skoða hann nánar. Við gengum um byggðina en eftir standa 5 hús, þar af ein kirkja og gamall skóli. Í litlu Narssaq er ótrúlega mikill gróður, krækiberjaling og grávíðir skutustu upp úr jörðinn og allt svart af berjum. Fjaran er að mestu klappir og klettar, en á smá kafla grjót og möl. Grjótið er ótrúlega fallegt, það er glansandi og litskrúðugt, sumt er eins og kristall. Narssaq stendur í litlum dal umluktum fjöllum. Á hólunum upp af byggðinni voru hlaðnar vörður og var ótrúlega víðsýnt frá þeim. Öll húsin voru opin, snyrtileg og þokkalega viðhaldið, en fátækleg, á sumrin eru reknar sumarbúðir fyrir börn í Narssaq. Ekkert rennandi vatn er í húsunum eða vatnssalerni, heldur eru fötur sem eru losaðar því engin er fráveitan eins og við þekkjum hér heima. Eftir dalnum miðjum rennur bergvatnsá þannig að nóg var ferskvatnið.

Í þessum dal voru sennilega 3 eða 4 grafreitir, sumstaðar var gróður til að grafa kisturnar en annarsstaðar voru kisturnar á bergi og hlaðið grjóti kringum og ofaná. Í leysingum rennur grjótið til og grafir opnast, maður sá niður á fúnar kistur, brotnar og opnar svo við blöstu líkamsleifar manna. Ég verð að segja að um mig fóru tilfinningar við þessa sjón sem ekki er hægt að koma í orð, þetta er svo ólíkt og fjarri hugsun manns að þetta sé eitthvað sem maður á eftir að upplifa. Þvílíkur munur á menningarheimum, leiðin voru all flest ómerkt en þó voru litlir krossar á leiðum barna en stórir á leiðum fullorðinna.

Getum við séð fyrir okkur að við Íslendingar rækjum sumarbúðir fyrir börn á stað sem þessum þar sem við hverjum sem vill blasa líkamsleifar í opnum gröfum, ekki við sem verndum börnin okkar fyrir öllu óþægilegu sem er kannski ekki óþægilegt heldur hluti af lífinu.

Þessi staður var einstaklega fallegur og hefur örugglega verið góður til búsetu, en danska stjórnin ákvað að hér skildu menn ekki búa.

Skipperinn kom og sótti okkur, heimferðin var framundan. Veðrið var orðið alveg dásamlegt sól, spegil sléttur sjór og blanka logn. En selurinn freistaði…þeir voru á varðbergi …lónað var áfram…og allt í einu var Eigil kominn með byssu og skaut….þá breyttist allt í einu allt…Ittu settist í stafn bátsins með byssuna og tíminn stóð í stað.

Allt var hljótt, tíminn hvarf og allir duttu í ham veiðimannsins og skimuðu um hafflötinn eftir að sjá selinn skjóta upp kollinum og aftur var skotið en hann slapp, allt í einu voru liðnir tveir klukkutímar án þess að nokkur yrði þess var í eltingaleik við sel sem alltaf slapp.

Tilfinningar sem fóru um mann á þessum klukkutímum er ólýsanleg. Flatlendingur frá Íslandi með veiðiklóm við strendur Grænlands, allt er hljótt tíminn er horfinn, fluglar flugu um loftin, hafið sem spegill með einstaka sel sem skaut kollinum uppúr haffletinum, veiðimenn sigldu hjá allir með sama svip og sama markmið að fanga bráð í matinn. Orka hafsins sveif yfir og hlóðst í líkamann á áþreifanlegan hátt, þetta er eiginlega ólýsanlegt slík var upplifunin.

Við vorum komin til Nuuk um tvö leitið og tók þá við smá rölt um miðbæinn síðan var tekinn smá lúr fyrir kvöldmatinn.

Við vorum boðin í grillað hreindýr til Atla og Inge. Þar var mættur hluti af fjölskyldu hennar til að „skoða“ okkur og hitta. Spilað var á harmonikku sungin grænlensk og íslensk lög. Pabbi hennar Inge kom þó ekki þar sem hann hafði farið á veiðar um morguninn og kemur heim þegar hann hefur veitt hreindýr í matinn.

Dagur er að kvöldi kominn, sælir og ánægðir ferðalangar fóru heim í háttinn um eittleitið.