ágúst 19th, 2007

Frétt á Stokkseyri.is

17. Ágúst 2007
Bókhalds og ráðgjafaþjónustan Hjá Maddý í nýtt og stærra húsnæði

Bókhalds og ráðgjafaþjónustan ”Hjá Maddý” hefur vaxið og dafnað vel síðan að Margrét Katrín Erlingsdóttir stofnaði fyrirtækið í júní 2002. Nú er fyrirtækið flutt í nýtt og stærra húsnæði að Eyravegi 27 á Selfossi. Með fyrirtækinu hefur Margrét einnig verið á kafi í bæjarpólitíkinni í Árborg.

Stokkseyri.is hafði tal af Margréti þar sem hún var ný flutt með stofuna.

” Ég byrjaði 10. júní 2002 og var þá ein í bakherbergi hjá Bjarna Harðar á Sunnlenska í um 12 fermetra herbergi. Ætlunin var að vera í vinnunni í um þrjá daga í viku og sinna pólitíkinni af fullum hug þess á milli. Í september sama ár áttaði ég mig á því að ég var búin að vera á kafi í vinnu í herberginu og komst ekki einu sinni út í bæ að vinna verkin mín þar, en ég fór oft á milli fyrirtækja og vann þar ýmis verk. Þannig að ég réð til mín fyrsta starfsmannin í september 2002 til að létta undir. Það var síðan um jólin sama ár að ég flutti í 50 fermetra skrifstofuhúsnæði í Árvirkjahúsinu og réð annan starfsmann sama vetur.

Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur tími og fyrirtækið vaxið og dafnað jafnt og þétt frá stofnun þess. Í janúar árið 2004 fluttum við í hinn endan á Árvirkjahúsinu þar sem við höfðum um 65 fermetra fyrir fyrirtækið. Haustið 2005 réði ég þriðja starfsmanninn og sá fjórði kom í janúar 2007. Þannig að í dag erum við fimm sem störfum á stofunni. Nýja húsnæðið sem við vorum að flytja í er um 108 fermetrar, mjög bjart og skemmtilegt. Alltaf nóg að gera og ákaflega skemmtileg þróun sem ég er þakklát fyrir”. Sagði Margrét Katrín Erlingsdóttir í viðtali við stokkseyri.is.

Skráð af: Reynir Már Sigurvinsson