mars 8th, 2007

Umsögn um samgönguáætlun 2007-2018

Bæjarráð Árborgar lýsir ánægju sinni með þá fjárveitingu sem áætluð er til uppbyggingar Suðurlandsvegar. Bæjarráð ítrekar fyrri kröfur sínar um að Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss verði fjögurra akreina vegur enda er um það algjör samstaða meðal sunnlenskra sveitarstjórnamanna.

Umferð um Suðurlandsveg hefur vaxið verulega undanfarin ár og ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram. Því er nauðsynlegt að framkvæmdir gangi hratt fyrir sig til að bæta öryggi vegfarenda og til að koma í veg fyrir að núverandi ástand Suðurlandsvegar hafi hamlandi áhrif á þá gríðarlegu uppbyggingu sem verið hefur á Suðurlandi undanfarin misseri. Bæjarráð leggur áherslu á að um leið og tillagan hefur verið samþykkt verði hafist handa og auglýst eftir tilboðum í samræmi við þá heimild til einkafjármögnunar sem felst í tillögunni.

Þá vill bæjarráð Árborgar taka fram að það telur algjörlega óásættanlegt að ekki sé gert ráð fyrir uppbyggingu vegar norðan byggðar á Selfossi með nýrri Ölfusárbrú fyrr en á þriðja tímabili samgönguáætlunar 2015 til 2018. Það er eindregin krafa bæjarráðs að verkefnið hefjist á árinu 2008.