mars 31st, 2007

Drauga og álfasafnið á Stokkseyri

Í kvöld fórum við hjónin ásamt starfsmönnum MS á Selfossi og mökum þeirra með rútum niður á Stokkseyri og skoðuðum söfnin um drauga og álfa.

Þó undarlegt megi teljast þá hef ég ekki komið fyrr inn í söfnin þar sem ég hef aldrei komist í þau ótal mörgu skipti sem mér hefur verið boðið að koma og skoða. Við vorum nú mjög hrifin af söfnunum.  Lestur Þórs er auðvitað einstakur á draugasögunum og upplifunin mikil þegar hlustað er á sögur um móra og skottur sem maður hefur áður lesið.   Mér fannst nú samt eins og draugsar leggðu mig í einelti þar sem þeir komu sí og æ stökkvandi til mín í allri sinni dýrð !  Taugarnar voru farnar að titra í lok skoðunar.

Álfasafnið er ótrúlega uppbyggt, þeir hafa nú þurft að hafa töluvert fyrir því að búa þetta umhverfi til sem er alveg stórkostlegt.  Þó fannst mér, sem  áhugamanneskju um álfa, vanta meira af álfum og upplýsingum um þá, þarna hefði til dæmis gjarnan  mátt sjást sól-og ljósálfar.  En auðvitað er þetta spurning um að láta hugan fljúga og láta ævintýrin mótast í sjálfum sér.

Stórskemmtileg ferð með góðum félögum.