mars 29th, 2007

Bæjarráð í morgun stóð til 10.00

Meðal annars var tekin fyrir fundagerð stjórnar Leigubústaða Árborgar vegna viðhalds að Háengi 8-14.   Ótrúlegt er nú hvernig bókarnir fulltrúi sjálfstæðismanna í bæjarráði getur sett fram.  Hér á eftir kemur afgreiðslan og bókanirnar…farðu í lesa meira.

Lagt var til að bæjarráð tæki undir niðurstöðu stjórnar Leigubústaða Árborgar ehf um útfærslu á viðgerð á Háengi 8-14.
Var það samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa B- og V-lista.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, situr hjá.


Bæjarfulltrúi D-lista gerir grein fyrir atkvæði sínu:
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja strax setja í söluferli þær níu íbúðir sem áætlað var að selja, sérstaklega þar sem íbúar nokkurra félagslegra íbúða hafa lýst vilja til að kaupa þær. Einnig vegna þess að í tíð fyrrverandi meirihluta voru teknar upp sérstakar húsaleigubætur og u.þ.b. 1/3 þeirra sem er á biðlista eftir félagslegu húsnæði á rétt á sérstöku húsaleigubótunum. Þess vegna er ekki rétt að þeir sem þiggja bæturnar séu á biðlista eftir félagslegu húsnæði, á þeim lista eiga að vera þeir sem eru í brýnni þörf. Einnig má nefna að í eigu Leigubústaða Árborgar eru yfir 100 félagslegar íbúðir. Vegna þessa vilja bæjarfulltrúar D-lista selja fleiri félagslegar íbúðir á árinu. Þar sem ekki er vilji til þess hjá meirihlutanum er nauðsynlegt fyrir Leigubústaði Árborgar að fara í viðgerðir á Háengi 8-14 sem er áætlað að kosti nærri 70 milljónum. Vegna þessa sit ég hjá.

Meirihluti bæjarráðs lagði fram svohljóðandi bókun:
Bókun bæjarfulltrúa D lista endurspeglar skilningsleysi á aðstæðum fólks sem býr við erfiðar aðstæður. Félagslegar leiguíbúðir í sveitarfélaginu eru 75, auk þess eru leiguíbúðir og kaupleiguíbúðir fyrir aldraða 39. Fulltrúi D lista vill þegar selja níu íbúðir og fleiri á árinu þrátt fyrir að í þessum íbúðum búi nú fólk sem uppfyllir öll skilyrði til þess.

Bent er á að fyrir liggja biðlistar vegna félagslegs leiguhúsnæðis, jafnt almennra íbúða sem íbúða fyrir aldraða. Forsenda þess að eiga umsókn um slíkt húsnæði er að viðkomandi búi við erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Meirihluti bæjarráðs lýsir undrun yfir þeirri vanvirðingu gagnvart velferðarþjónustu í Árborg sem fram kemur í bókun fulltrúa D lista. Sveitarfélagið leggur metnað sinn í að húsnæði á þess vegum sé í góðu ástandi og vel við haldið og á það jafnt við um leiguíbúðir sem annað húsnæði.