maí 4th, 2006

Árborg í öruggum rekstri

 

Frambjóðendum Sjálfstæðismanna er tíðrætt um fjárhag sveitarfélagsins Árborgar á síðum blaðanna þessa dagana.
Fasteignagjöld hafa lækkað um 26,5%.

Þeir hafa farið mikinn í skrifum sínum um óráðsíu og álögur meirihluta bæjarstjórnar. Álagningaprósenta fasteignagjalda hefur verið óbreitt frá því að félagar þeirra í Sjálfstæðisflokknum og mínir félagar í Framsóknarflokkum voru við völd 1998-2002, ég man þetta vel en ekki er víst að þeir muni gerðir félaga sinna. Álagningaprósenta fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði var 0,40, en lækkaði 1. janúar 2006 í 0,37, og í 0.30 þann 26 apríl síðast liðinn. Heildarlækkun í dag er 26,5 % á íbúðarhúsnæði, álagningarprósenta á hesthús var á síðasta. ári 1,65 en lækkar nú í 1,32.

Eignir hafa tvöfaldast að verðgildi.

Á þessu kjörtímabili hefur verðgildi eigna tvöfaldast vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem hefur átt sér stað og hefur það áhrif á þau gjöld sem við greiðum af eignum okkar. Þó þarf að taka tillit til þess að hækkun á holræsagjaldi og vatnsgjaldi er tímabundin vegna þeirra miklu framkvæmda sem eiga sér stað í þeim málaflokkum.

Reynt að slá ryki í augu kjósenda.

Fram kemur í grein þann 6. apríl sl. í Dagskránni að Bæjarsjóður hafi verið rekinn með tapi allt kjörtímabilið utan ársins 2002, hér er um hrein ósannindi að ræða þar sem að Bæjarsjóður og Samstæðureikningur sveitarfélagsins hafa skilað hagnaði öll árin nema árið 2003, ef sannleikurinn hefði verið sagður þá hefði auðvitað ekki verið hægt að skrifa um að allt sé hér í kalda kolum.

Aldrei farið leynt með þörf á lántökum.

Staðreyndin er sú að rekstur Sveitarfélagsins Árborgar er góður og skilaði góðri afkomu síðast liðið ár þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum var aldrei farið leynt með að þörf yrði á að skuldsetja sveitarfélagið til þess að taka á þeim verkefnum sem voru framundan, annað er því miður ekki hægt þar sem stærsti hluti tekna sveitarfélaga fer í lögbundin verkefni.

Hvað munum við langt ?

Ef þú horfir til baka kjósandi góður þó ekki sé nema “fjögur ár” þá getur þú skoðað hvernig staðan var þá og hvernig er hún í dag. Hvað hefur þessi meirihluti verið að gera allt þetta kjörtímabil ? Miðað við skrif Sjálfstæðismanna er það ekki neitt ! og það sem hefur verið gert er ómögulegt ! Hver er þá ástæðan fyrir því að fólk sækist eftir því að setjast að í Árborg ? Nýjir íbúar hafa flutt hingað í hundraða tali síðustu fjögur ár, heildarfjöldi nýrra íbúa er 800 manns, þetta fólk sér tækifærin hér.

Óábyrg skrif.

Að skrifa með þessum hætti um sveitarfélagið okkar er óábyrgt og gerir ekkert annað en að rýra álit þess. Við sem hér búum vitum betur, við búum í góðu sveitarfélagi sem stendur á styrkum stoðum fjárhagslega og veitir okkur góða þjónustu. Árborg er í fremstu röð meðal sveitarfélaga.

Margrét K. Erlingsdóttir, skipar 2. sæti á B-listanum, Lista Framsóknarmanna í Árborg.