apríl 6th, 2006

Þaralátursfjörður og Drangajökull.

 

Þaralátursfjörður var aldrei þéttbýll enda eru landkostir ekki miklir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá byrjun 18. aldar segir að Þaralátursfjörður sé forn eyðijörð sem hafi ekki byggst svo lengi sem menn muni. Þó sé vitað um eitt býli sem var langtímum saman í eyði. Helstu hlunnindi voru rekaviður og selveiðar úti við ströndina. Einnig er þar skipalægi sem ekki er að finna í nágrannafjörðunum.

 

Þaralátursfjörður var aldrei þéttbýll enda eru landkostir ekki miklir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá byrjun 18. aldar segir að Þaralátursfjörður sé forn eyðijörð sem hafi ekki byggst svo lengi sem menn muni. Þó sé vitað um eitt býli sem var langtímum saman í eyði. Helstu hlunnindi voru rekaviður og selveiðar úti við ströndina. Einnig er þar skipalægi sem ekki er að finna í nágrannafjörðunum.

Þaralátursfjörður liggur á milli Furufjarðar og Reykjafjarðar. Þaralátursnes skilur fjörðinn frá Reykjafirði en Furufjarðarnúpur frá Furufirði. Fjörðurinn gengur inn í landið í nær sömu stefnu og Furufjörður, en er mun þrengri. Fjarðarbotninn er mest megnis ógróinn sandur, sundurtættur af jökulánni Þaralátursós sem rennur frá Drangajökli, en jökullinn skríður fram í fjörðinn. Úr framburði árinnar myndast miklar aureyrar sem eru gróðursælar. Eyrarrós er áberandi og varpar dumbrauðum blæ á dalinn á stórum svæðum þegar líða tekur á sumarið. Eyrarrósin er sjaldséð annars staðar á Vestfjörðum.

Sagt er að sakamenn fyrr á öldum hafi nýtt sér fámenni fjarðarins og nokkrir slíkir leituðu sér þar skjóls, bæði snemma á öldum og á seinni hluta 19. aldar. Ofarlega í Þaralátursós er stór klettahöfði sem nefndist Óspakshöfði, kenndur við Óspak Glúmsson sem frá er sagt í Eyrbyggju og Óspakseyri í Bitrufirði á Ströndum er kennd við. Á 11. öld gerðu bændur þar umsátur um Óspak sem hafði farið með ránum og ólátum um Strandir og búið um sig í Þaralátursfirði og gert virki um bæinn. Að lokum tókust sættir og Óspakur lofaði að koma aldrei aftur á Hornstrandir. Það varð eftir.

Úr firðinum er greið gönguleið yfir Þaralátursnes til Reykjafjarðar. Einnig er gönguleið um Svartaskarð yfir í Furufjörð en hún er erfiðari yfirferðar. Ósinn sjálfur er væður á fjöru, en á flóði fellur langt upp eftir honum.

Eyðibýli í Þaralátursfirði
Býli sem hét Nes var í Þaralátursfirði fyrrum, það var þó löngum í eyði. Síðasti ábúandinn flutti þaðan laust fyrir 1950.
Vestan megin, utan við Þaralátursós, standa bæjarrústirnar á litlu túni. Af ábúendum í Þaralátursfirði má nefna Benedikt bónda sem bjó þar um 1885 þegar Þorvaldur Thoroddsen var þar á ferð að rannsaka jökulinn og einnig Baldur Sveinsson sem var bóndi um 1930 þegar jökulskerið Reyðarbunga skaut upp kollinum undan Drangajökli. Þótti Baldri sem skerið hefði skotist upp eins og hvalbak og gaf því nafn í samræmi við það. Að Þaralátursfirði var keypt ein fyrsta sögunarvélin á Ströndum.

Drangajökull

Utan við Hornstrandafriðland, á mörkum Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu er fimmti stærsti jökull landsins, Drangajökull. Síðustu áratugi hefur jökullinn farið minnkandi, líkt og flestir aðrir jöklar á Íslandi. Í dag er hann um 200 ferkílómetrar að stærð. Drangajökull dregur nafn sitt af Dröngum og Drangaskörðum á Ströndum.


Hæsti tindur Drangajökuls er í Jökulbungu, 925 m. Mjög áberandi eru þrjú jökulsker sem standa upp úr jöklinum. Þau eru Hrollleifsborg (851 m), Reyðarbunga (777 m) og Hljóðabunga (825 m). Reyðarbunga var einna síðust til að skjóta kollinum úr ísnum eða um 1930.

Út frá jöklinum ganga fram nokkrir skriðjöklar og grafa sér leið fram í firðina svipað og ísaldarjökullinn sem mótaði Vestfirði í fyrndinni. Skriðjöklarnir eru margir erfiðir yfirferðar, sérstaklega þeir sem skríða fram þrengri dali. Þar ná þeir alla leið niður að láglendi og eru þá orðnir talsvert sprungnir. Helstu skriðjöklar Drangajökuls eru Kaldalónsjökull, Leirufjarðarjökull, Þaralátursfjarðarjökull, Reykjafjarðarjökull og Bjarnarfjarðarjökull. Jökulár eiga upptök sín undir jöklinum og hafa þær oftar en ekki borið fram mikið magn af sandi og leir úr fjallendinu undir jökli og fyllt firðina af gróðursnauðum sandi og aur. Vatnsmest þeirra er Selá í Skjaldfannardal. Með hlýnandi veðurfari hafa skriðjöklarnir hopað og skilið eftir sig jökulgarða og ruðninga.

Áður fyrr voru alfaraleiðir yfir jökulinn milli Stranda og Ísafjarðardjúps og algengt var að rekaviður af Ströndum væri dreginn af hestum yfir jökulinn. Danskir vísindamenn fóru einnig í rannsóknarferðir upp á jökul. Hans Frisak fór fyrstu ferðina, en alls fór hann fjórar ferðir árið 1809. Þorvaldur Thoroddsen kannaði Drangajökul á árunum 1886-87 og má sjá ummerki eftir hann í Leirufirði en þar klappaði hann krossmark í klöpp nálægt því sem jökulröndin var staðsett. Taldi hann það fyrstu mælingu á skriðjökli á Íslandi. Í dag eru ferðir á Drangajökul orðnar mun algengari en áður og eru farartækin þá vélsleðar og vel útbúnir jeppar.

Ástæða er til að brýna fyrir ferðalöngum sem leggja á Drangajökul að fara varlega og fylgjast vel með veðurspám. Jökullinn er fljótur að breytast og aðstæður þar líka