apríl 26th, 2006

Siglt verður í Reykjafjörð 14. júlí 2006 Reykjafjörður


Reykjafjörður er breiður og stuttur fjörður. Hann fór í eyði árið 1959, en húsum hefur verið haldið við og þau standa í tveimur þyrpingum utarlega við norðvestanverðan fjörðinn þar sem láglendi er nokkurt. Gömlu bæjarhúsin standa á hæð ofan við sjóinn og önnur hús sem eru í sumarábúð eru nokkuð innar.

Reykjafjörður er breiður og stuttur fjörður. Hann fór í eyði árið 1959, en húsum hefur verið haldið við og þau standa í tveimur þyrpingum utarlega við norðvestanverðan fjörðinn þar sem láglendi er nokkurt. Gömlu bæjarhúsin standa á hæð ofan við sjóinn og önnur hús sem eru í sumarábúð eru nokkuð innar.

Í Reykjafirði er nokkur jarðhiti, þar er hverasvæði og heitasta laugin er um 64 gráður. Úr neðstu lauginni sem stendur hjá húsunum er afrennsli í sundlaug sem byggð var árið 1938. Um 400 metrum framan við sundlaugina mynda heitt hveravatn og kalt lindarvatn dálitla tjörn sem er kölluð Hestvallalaug. Önnur hlunnindi sem fylgja jörðinni er mikill rekaviður.

Nálægt byggðinni eru klettaborgir sem standa upp úr sléttlendum og gróðursælum dalnum og eru þær sérkennilegar að lögun eftir núning jökla. Ofan af klettaborgunum er gott útsýni yfir fjörðinn.

Austanmegin lokar Geirólfsgnúpur firðinum. Í Landnámu er sagt frá því að Geirólfur landnámsmaður hafi brotið skip sitt undir núpnum og sest þar að. Yst á nesoddanum er drangur sem kallaður er Biskup og áður fyrr var talað um að fara fyrir Biskup þegar siglt var fyrir núpinn. Neðan hans er sker sem líkist helst atgeir og hefur því verið nefnt Geirhólmi. Innan núpsins er Sigluvík á milli hans og Sigluvíkurnúps. Þar tekur láglendi við sem áður hefur verið hluti af Reykjafjarðarsandi en sandurinn hefur færst utar í tímans rás og land gróið. Sést það meðal annars á gamalli keðjufestingu fyrir báta sem fest er í klöpp alllangt frá sjó.

Í Reykjafjörð gengur lengsti skriðjökullinn úr norðanverðum Drangajökli og frá honum fellur Reykjafjarðarós niður á láglendið. Jökulgarðarnir eru þrír og sá innsti er frá 1914-20. Innan láglendisins er útsýni yfir Miðmundarhorn og handan þess sér í Hrollleifsborg í Drangajökli og jökulskerin Hljóðabungu og Reyðarbungu. Norðvestan til eru hlíðar Þaralátursness og handan þess sér til Jökulbungu þar sem Drangajökull rís hæst í 925 metra hæð. Nálægt hlíðunum gengur allstór landfastur klettur út frá láglendinu þar sem Reykfirðingar hafa sögunarhús. Þar vinna þeir rekavið og heitir það á Hlein, en nokkurn spöl þar fyrir utan er Vogur, þar sem bátar voru teknir á land og má sjá þar nokkra gamla báta. Úti fyrir odda nessins er skerjagarður þar sem mikið er um sel.

Í Reykjafirði er rekin ferðaþjónusta á sumrin og þar er boðið upp á svefnpokapláss í sumarhúsum. Einnig er hægt að tjalda og komast í laugina góðu. Í Reykjafirði er flugvöllur.

Hægt er að ganga á Geirólfsgnúp þar sem útsýni er til allra átta, m.a. í suður til Drangaskarða. Þá þarf að vaða yfir Reykjafjarðarós og fylgja fjárgötum út í Sigluvík sem gengur suður úr Reykjafirði. Þaðan liggur gata til Skjaldabjarnarvíkur sem hægt er að beygja út af upp á Geirólfsgnúp. Vinsæl gönguleið er frá Reykjafirði og suður Strandir í Ófeigsfjörð.

Einnig er vinsæl gönguleið frá Reykjafirði yfir Reykjafjarðaháls til Þaralátursfjarðar og þaðan til Furufjarðar þar sem komið er inn á hinar eiginlegu Hornstrandir.

Eyðibýli í Reykjafirði

Örnefni benda til þess að í Reykjafirði hafi verið allmörg býli sem lagst hafi af vegna framskriðs jökulsins eða rennslis óssins. Mjög er á reiki hvar þessir bæir stóðu og hvað þeir hétu.

Bæjarnöfn sem varðveist hafa eru Knittisstaðir, Kötlutún og Fremra- og Neðra-Horn. Sunnan megin í firðinum stóð bærinn Sæból á grænu túni undir hlíðum Sigluvíkurnúps. Hann hefur verið lengi í eyði. Innan hans, hjá heitri laug, stóð bærinn Kirkjuból undir hlíðum Miðmundahorns