Skólastefna grunnskóla Árborgar var samþykkt í lok árs 2003 með fræðslu og mannrækt að leiðarljósi. Mikilvægt er að stefna sveitarfélagsins í fræðslumálum sé skýr og aðgengileg öllum þeim sem vilja kynna sér hana.
Fyrsti hluti Sunnulækjarskóla var tekinn í notkun haustið 2004 og seinni áfangi byggingarinnar hefur verið boðinn út og mun kennsla hefjast í honum haustið 2007. Tvö síðastliðið ár hefur nemendur og starfsfólki í öllum grunnskólum Árborgar boðist heitur matur í hádeginu. Nýtt hús fyrir Tónlistarskóla Árnesinga er orðið raunveruleiki, hluti þess tekinn í notkun í vor en kennsla mun hefjast í nýju skólahúsi í haust. Úttekt var gerð á húsnæði Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri í lok árs 2003, vinnuhópur vegna framtíðaruppbyggingar skólans skilaði niðurstöðum í upphafi árs 2006, ákvörðun um hvar og hvenær verður hafist handa við uppbygginu húsnæðis skólans er í vinnslu hjá Bæjarstjórn. Mikið hefur verið gert í endurbótum á húsbúnaði og húsnæði skólanna. Sveitarfélagið hefur komið markvisst að uppbyggingu FSu, meðal annars með því að auka fjármagn til íþróttahúss skólans ásamt því að styðja við nýja námsbraut “Körfuknattleiks akademíuna” sem hefur með starfi sínu verið til mikils sóma fyrir alla sem að henni koma.
Öflugur leikskóli til framtíðar
Leikskólastefna Árborgar var samþykkt í lok árs 2003. Í leikskólum sveitarfélagsins er unnið metnaðarfullt starf og yfirstjórn leikskólamála hefur haft í mörg horn að líta síðustu mánuði. Leikskólinn Árbær var tekinn í notkun sumarið 2002, bráðabirgðadeildir við Árbæ og Álfheima fyrir 53 börn voru teknar í notkun 2006, nýr 6 deilda leikskóli er í byggingu við Erlurima fyrir 138 börn, og verður hann tekinn í notkun 1. desember 2006. Komið hefur verið til móts við barnmargar fjölskyldur með systkinaafslætti, allt er tengt saman, dagmæður, leikskóli og skólavist. Fyrir fyrsta barn er greitt fullt gjald nema það sé hjá dagmóður þá fæst niðurgreiðsla með því, annað barn fær 25% afslátt og þriðja barn 50% afslátt af dagvistunargjöldum. Í Bæjarstjórn í síðustu viku var samþykkt að niðurgreiða dagvistunargjöld allra barna hjá dagmæðrum fram að leikskólaaldri kr. 20.000- á mánuði miðað við heilsdagsvistun, sama er í hvaða sveitarfélagi barnið er vistað. Einnig var samþykkt að vinna eftir nýjum viðmiðunarreglum Sambands Íslenskra Sveitarfélaga vegna dagvistunar barna. Nú er hægt að sækja um tímabundið að barn sé vistað á leikskóla í öðru sveitarfélagi og Árborg greiðir með barninu. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir foreldra ungra barna, einnig fyrir námsmenn sem tímabundið þurfa að dvelja utan heimabyggðar.
Stórátak í menningarmálum
Í menningarmálum hefur margt verið gert á þessu kjörtímabili. Hátíðin Vor í Árborg er eitt af flaggskipum Árborgar. Menningarhátíð sem stendur í um viku tíma og menningarviðburðir eru á hverju götuhorni. Mikill metnaður hefur verið lagður í þessa hátíð af hálfu menningarnefndar. Menningaverstöðin Hólmaröst er menningarhús sveitarfélagsins og hefur Árborg gert samning við rekstraraðila hennar um aðgengi menningafélaga að henni. Nú geta öll menningafélög innan sveitarfélagsins fengið inni í menningarhúsinu á Stokkseyri í gegn um þennan samning. Það nýjasta sem samþykkt hefur verið í menningarmálum er “Menningarsjóður barna” sem er að hefja sitt fyrsta starfsár. Er honum ætlað að kynna börnum og ungmennum menningu í heimabyggð. Gerðar hafa verið endurbætur á Kríunni þannig að íbúar geta notið hennar að nýju. Keypt var listaverkið “Sendiboðinn” af Halldóri Forna, samningur hefur verið gerður um kaup á listaverki sem staðsetja á hér á Selfossi eftir listakonuna Sigrúnu Ólafsdóttur. Eins og sjá má af ofantöldu hefur margt áunnist í Árborg síðustu fjögur ár.
Margrét Katrín Erlingsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg