mars 22nd, 2006

Bættur hagur barnafjölskyldna í Árborg. Sameiginleg grein frá Margréti og Ragnheiði

Á undanförnum misserum hafa málefni barnafjölskyldna í Árborg verið í brennidepli hjá bæjaryfirvöldum.

Ýmislegt hefur verið gert til að bæta haga þeirra m.a. með auknum niðurgreiðslum og afslætti á gjöldum og möguleika á að börn séu í dagvistun í öðrum sveitarfélögum. Auk þess eiga fjölfötluð börn þess kost að komast inn á leikskóla við 18 mánaða aldur frá og með 1. ágúst n.k. skv. samþykkt í bæjarráði í desember 2005. Á fundi bæjarstjórnar Árborgar þann 8. mars s.l. voru samþykktar tvær tillögur starfshóps um breytingar á dagvistunarúrræðum barna.

Leikskóli í öðru sveitarfélagi.

Samþykkt var að sveitarfélagið tæki upp viðmiðunarreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna dvalar barna á leikskólum utan heimabyggðar. Það felur í sér að forráðamenn barna sem eiga lögheimili í Sveitarfélaginu Árborg geta nú óskað eftir tímabundinni leikskóladvöl fyrir barnið utan lögheimilissveitarfélags og mun Árborg greiða með barninu samkvæmt þessum reglum. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir t.d. námsmenn sem flytja tímabundið frá Árborg en kjósa að eiga þar áfram lögheimili og einnig getur þetta skipt miklu máli fyrir fjölskyldur sem eru að flytja í Árborg en kjósa af einhverjum ástæðum að halda leikskólaplássi barns í fyrra sveitarfélagi um einhvern tíma, t.d. þegar barn er á síðasta ári í leikskóla, eða meðan beðið er eftir plássi á leikskóla í Árborg. Með þessu er sveitarfélagið að bregðast við þeim miklu breytingum sem orðið hafa í samfélaginu á síðustu árum og koma m.a. fram í tíðari flutningum fólks og meiri hreyfanleika almennt.

Daggæsla í heimahúsum.

Einnig var samþykkt tillaga um niðurgreiðslu vegna daggæslu barna í heimahúsum hjá dagforeldrum. Frá 1. apríl n.k. geta allir foreldrar sótt um niðurgreiðslu á daggæslu í heimahúsum samkvæmt ákveðnum reglum sama í hvaða sveitarfélagi barnið er vistað. Greitt er með hverju barni 10.000 kr. miðað við fjögurra tíma vistun og síðan hlutfallslega hækkandi upp að 20.000 kr. miðað við átta tíma vistun eða lengri. Niðurgreiðslur hefjast með börnum einstæðra foreldra frá sex mánaða aldri og frá níu mánaða aldri hjá sambýlisfólki eða hjónum, eða frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur. Með þessari samþykkt er komið til móts við foreldra barna undir leikskólaaldri og felur hún í sér mikla kjarabót fyrir þennan hóp.

Systkinaafsláttur aukinn

Auk ofangreindra samþykkta hefur systkinaafsláttur verið tengdur á milli allra vistunarúrræða, dagforeldra, leikskóla og skólavistunar.. Niðurgreiðslur eru eins og fyrr segir með börnum hjá dagforeldrum fyrir heilsdagsvistun kr. 20.000, fyrir annað barn í dagvistun er 25% afsláttur af gjaldi og 50% afsláttur fyrir þriðja barn.

Með þessum aðgerðum hefur bæjarstjórnin enn bætt velferðarþjónustu í Árborg og búið vel að barnafjölskyldunum sem fóstra fjöregg framtíðarinnar.

Margrét K. Erlingsdóttir bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og Ragnheiður Hergeirsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar