maí 24th, 2006

Framsókn til framtíðar

 

Litið yfir farinn veg

Við tímamót í lífinu lítum við Íslendingar gjarnan yfir farinn veg. Það á vel við nú hjá okkur kjörnum fulltrúum í Bæjarstjórn Árborgar sem erum að ljúka störfum á þessu kjörtímabili. Þegar ég horfi aftur um fjögur ár sé ég að miklar breytingar hafa orðið á sveitarfélaginu okkar, það hefur dafnað vel á þessum stutta tíma. Sýn mín er allt önnur nú eftir að ég hef fengið að kynnast innviðum sveitarfélagsins sem starfandi bæjarfulltrúi. Hjá sveitarfélaginu starfa rúmlega 500 manns og hefur verið ómetanlegt að fá tækifæri til að kynnast og starfa með öllu þessu góða fólki sem ber hróður Árborgar hvar sem það fer. Þetta verkefni hefur verið ótrúlega skemmtilegt og krefjandi.

 

Árborg tækifæranna

Ég fékk tækifæri til að taka þátt í mestu uppbyggingartímum sem komið hafa í Árborg. Íbúaþróun hefur verið sú mesta á landsvísu. Sunnulækjarskóli hefur verið tekinn í notkun, starf grunn- og leikskólanna hefur sprungið út, félagsmiðstöðin eflist með degi hverjum, íþróttastarfsemi eykst og menningin blómstrar. Framundan eru bjartir tímar, fjárhagsstaðan er góð, verkefnin óþrjótandi og sveitarfélagið er valið af mörgum ákjósalegt til búsetu. Árborg er í fremstu röð meðal sveitarfélaga.

Með traust og heiðarleika

Við lok kjörtímabilsins er mér efst í huga þakklæti til ykkar íbúar Árborgar fyrir að gefa mér tækifæri fyrir fjórum árum til að takast á við starf Bæjarfulltrúans. Það hefur gefið mér mikið, verið lærdómsríkt og skemmtilegt. Ég býð mig fram til áframhaldandi starfa fyrir sveitarfélagið okkar með traust og heiðarleika að leiðarljósi, eins og ég gerði fyrir fjórum árum. Ég segði því við þig kjósandi góður, veldu Framsókn til framtíðar í Árborg og settu X við B á kjördag.

Margrét Katrín Erlingsdóttir, 
Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, 
skipar annað sæti á B-lista Framsóknarmanna í Árborg.