febrúar 16th, 2006

Fundur um samgöngumál á vegum SASS


Fundur var haldinn í Hótel Selfoss í kvöld á vegum samgöngunefndar SASS. Umræðuefni fundarins var Suðurlandsvegurinn frá Reykjavík að Selfossi. .


Mikill þungi var í fundarmönnum vegna ástands vegarins og skýrt kom fram að með öllum þeim umferðarþunga sem á honum er væri þörf á því að hann væri 2 + 2, en ekki einungis 2 + 1. Umferð þungaflutninga hefur aukist verulega síðustu ár þar sem sjóflutningar eru að mestu aflagðir. Enda er það augljóst hverjum sem um veginn fer bæði vegna ástands hans og allra flutningabílanna sem eru á ferðinni. Nokkuð merkilegur fundur þar sem Samgönguráðherra kynnti nýjar hugmyndir um Suðulandsveginn.


Suðurlandsvegur verður breikkaður alla leiðina frá Reykjavík á Selfoss og verður leiðin þá tvær akreinar í aðra áttina og ein í hina.


Forhönnun vegarins frá Hveragerði og að Hafravatnsafleggjara verður boðin út strax um næstu mánaðamót. Einnig verður boðin út verkhönnun á tveimur áföngum þessarar leiðar eða á háheiðinni og frá Litlu-kaffistofunni að Lögbergsbrekku. Þess utan verður þriðju akreininni bætt við veginn frá Litlu-kaffistofunni og á háheiðinni þar sem í dag eru tvær akreinar. Í máli ráðherra kom fram að vegurinn yrði í framtíðinni 2 + 2.


Í máli ráðherra kom einnig fram að aðrar framkvæmdir í suðurkjördæmi er færsla hringvegarins norður fyrir Selfoss og áframhaldandi fækkun einbreiðra brúa. Þá verður hringvegurinn lagfærður um Gatnabrún og innan tólf ára verður Suðurstrandarvegur kláraður frá Herdísarvík að Ísólfsskála.


.