nóvember 13th, 2003

Viðtal við Margréti Erlingsdóttur, formann skólanefndar Grunnskóla Árborgar.


1) Nú var verið að samþykkja skólastefnu fyrir Grunnskóla Árborgar, hvað felst í þessari stefnu og hver er tilgangur hennar ?

 

 

Skólastefnan er yfirmarkmið sveitarfélagsins í rekstri grunnskólans, í henni kemur fram hvaða markmið við setjum okkur. Í leiðarljósi skólastefnunar kemur meðal annars fram "að grunnskólar sveitarfélagsins standist samanburð við bestu skóla innan lands og utan". Skólastefnur eru hugsaðar þannig að sett eru upp markmið sem að skólarnir vinna síðan að, ekki hvernig þeir vinna heldur að hverju. Tilgangur með öllum stefnum er að það að öllum sé ljóst hvert stefna á í þeim málaflokki sem stefnan er sett í. Grunnskólastefnan er til fimm ára, en verður þó ávallt til endurskoðunar.

 

2) Eru einhver sérstök atriði úr þessari stefnu sem vekja meiri áhuga en önnur ?

Já auðvitað eru í þessari stefnu atriði sem samstarfsflokkarnir í meirihlutanum lögðu áherslu á í kosningabaráttum sínum, td. um heitar máltíðir í skólunum fyrir alla, bæði nemendur og starfsfólk, og að markvisst verði unnið að því að efla söng og tónlistalí í skólunum. Einnig kemur fram að lögð verði áhersla á að rækta með nemendum sjálfstæð vinnubrögð, félagslega færni og ábyrgð. Skólastefnan er öll mjög áhugaverð og metnaðarfullt plagg sem ég ráðlegg öllum að kynna sér.

Hvernig var stefnan unnin og hverjir komu að vinnu hennar ?

Vinnan við skólastefnuna var sérstaklega skemmtileg, við hófum vinnuna í febrúar sl. kjörnir fulltrúar í skólanefnd, þar unnu allir saman sem einn maður, við fengum síðan faglega leiðbeiningu og aðstoð frá Kristínu Hreinsdóttur hjá Skólaskrifstofu Suðurlands þegar við vorum komin vel á stað. Þegar drög af stefnunni voru tilbúin í maí sendum við hana til umsagnar til allra sem málið varðar, skólastjórnenda, kennara, almennra starfsmanna, foreldrafélaganna, forvarnarnefndar og til fulltrúa Flóahreppanna. Við gáfum þeim síðan einn mánuð til að yfirfara og skoða drögin, fengum síðan umsagnirnar til baka yfirfórum þær og bættum við eftir því sem að okkur fannst passa. Við lögðum þó áherslu á að allir hópar gætu fundið í stefnunni þætti sem kæmi frá þeim þannig að allir ættu sinn hluta af henni. Allir umsagnaraðilar unnu frábært starf og lögðu á sig mikla vinnu við umsagnir sínar, og fyrir það vil ég þakka þeim sérstaklega. Það eru auðvitað ákveðin forréttindi fyrir mig að fá að koma að vinnu sem þessari og hafa með sér slíkt úrvalslið eins og það sem að þessari vinnu kom.

3) Nú var mikill urgur í skólamálunum í lok síðasta kjörtímabils vegna sameiningar Sandvíkurskóla og Sólvallaskóla í Vallaskóla. Eru þessi mál komin í gott lag í dag ?

 

Já ég mundi nú segja að hlutirnir væru komir í jafnvægi, starfsfólk, nemendur og bæjarstjórn hafa lagst á eitt til að gera allt sem mögulegt er til að sameiningin gengi sem best fyrir sig og það hefur auðvitað skilað árangri. Það er þó alltaf svo að alla hluti er hægt að gera betur, en við vitum að í sameiningu grunnskólanna hafa allir gert sitt besta og vel það. Það er mín skoðun að sameiningin hafi gegnið vel og starfsfólkið okkar hafi unnið þrekvirki á mjög skömmum tíma. Við verðum að átta okkur á því að það er ekkert einfalt að sameina skóla við þessar aðstæður sem eru hér á Selfossi, skólinn er í mörgum húsum, bæði stórum og smáum, misgóðum, aðstæður og aðbúnaður er mjög mismunandi eftir því hvar nemendur og starfsmenn eru að vinna. Við búum við mikil þrengsli og því miður hefur þetta ástand bara vesnað síðastliðið ár enda hefur vöxtur sveitarfélagsins verið mikill eins og allir sjá. Og með nær hverri fjölskyldu sem hingað flytur fylgja börn á leik- eða grunnskólaaldri. En framundan eru þó bjartari tímar við sjáum orðið hilla í nýja grunnskólann í Suðurbyggð, það gerir það að verkum að allir leggjast á eitt vegna þess að ljósið er framundan.

 

4) Hvernig hefur sameiningin gengið og heppnast að þínu mati ? svar með fyrri spurningu.

 

5) Nú er rekstru grunnskólanna í sveitarfélaginu mjög dýr. Finnst þér þessir peningar nýtast vel eða er hægt að nýta þá enn betur (hvernig) ?

 

Grunnskólinn er lang dýrasta rekstrareining sveitarfélagsins tekur til sín um 700 milljónir sem eru um 42% af skatttekjum. Auðvitað erum við alltaf að skoða og fara yfir hvort að nýting skattpeninganna sé nægileg og hvort að forgangsröðun sé rétt. En í skólunum er ekki auðvelt að spara, skólinn er lögbundin þjónusta sveitarfélaga og þar er farið eftir ákveðnum lögum og reglum. Það er staðreynd að um allt land hefur rekstrarkostnaður skóla verið að hækka vegna þess að sveitafélögin setja sér háleit markmið með grunnskólana. Það er einfaldlega lagt meira til skólana en áður var, enda er auður hvers byggðarlags æskan og að henni viljum við búa vel.

 

6) Voru mistök hjá sveitarfélögunum að taka við grunnskólunum frá ríkinu á sínum tíma ? (Ef já, af hverju, ef Nei, af hverju)

 

Ég segi hiklaust já, ástæðan er einfaldlega sú að við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga á sínum tíma fylgdi ekki nægilegt fjármagn og það hefur ekki verið leiðrétt. Einnig voru launakjör kennara orðin langt á eftir þannig að við það var ekki búið og þar af leiðandi jókst kostnaðurinn verulega. Síðan er það svo að ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu ríkisins sem hafa gert skildur sveitarfélaga meiri, þessar ákvarðanir hafa ekki verið kostnaðarreiknaðar, og þar af leiðandi ekki fylgt fjármagn í samræmi við kostnað. Aftur á móti tel ég að í dag sé starf í skólum öflugra og metnaðarfyllra en áður var, vegna þess að sveitafélögin hafa metnað í að efla skólana og hafa þar af leiðandi veitt meira fjármagni til þeirra og ég mundi ekki vilja að sveitarfélögin létu skólana til ríkisins aftur.

 

7) Nú kom mjög skýrt fram á íbúaþingunum á Eyrarbakka og Stokkseyri að fólk óttast mjög að annar skólinn á þessum stöðum verður lagður niður. Eru þettar réttmætar áhyggjur og sérð þetta gerast á næstu árum ?

 

Auðvitað er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af þessu, sérstaklega vegna þess að víða hefur það fylgt í sameiningu sveitafélaga að skólar jaðarbyggða hafa verið aflagðir. En ég get fullyrt að þetta mál hefur ekki verið rætt í bæjarstjórn Árborgar eða skólanefnd, þess vegna er engin ákvörðun fyrirliggjandi. Bæjarstjórn skipaði starfshóp til að taka út byggingar skólans og hefur sá hópur skilað niðurstöðu. Í þeirri skýrslu kemur skýrt fram að húsnæði skólans er of lítið og uppfyllir ekki þær kröfur sem eru gerðar í dag til skólahúsnæðis hvað stærð varðar. En hvort að byggt verður á Eyrarbakka eða Stokkseyri eða á báðum stöðum hefur ekki verið rætt. Ég er alin upp á Hellu á Rangárvöllum og geri mér þess vegna vel grein fyrir því að þessar áhyggjur eru fullkomlega eðlilegar vegna þess að skólinn er stór vinnustaður og hjarta þorpsins. Sveitarfélagið er að byggja nýjan grunnskóla á Selfossi og meðan sú framkvæmd er í gangi er því miður lítið til af peningum í aðrar framkvæmdir, þannig að ég tel ekki miklar líkur á að hafin verði bygging annars grunnskóla meðan sú framkvæmd er í gangi.

 

8) Nú hefur bekkjum á efsta stigi í Vallaskóla verið skipt niður eftir kynjum, þ.e. bara strákabekkur og bara stelpubekkur. Hvað finnst þér um þessa skiptingu og hverju á þetta að skila ?

 

Ég var mjög hlynt þessari skiptingu og skólanefnd stóð að baki skólastjórnenda í henni. Ég held að kynjaskipting á ákveðnum aldri geti skilað miklum árangri í skólastarfi. Staðreyndin er sú að einkunnir drengja hafa farið lækkandi á síðustu árum, þegar kynþroskaaldur færist yfir þá truflar hann verulega nám barna það er staðreynd. Erlendis hafa menn sem skoðað hafa kynjaskiptingu mest vilja stíga skrefið til fulls og kynjaskipta unglingastigi upp að menntaskólaaldri. En staðreyndin er sú að þessi kynjaskipting í Vallaskóla hefur skilað góðum árangri og gengið vel til dæmis hafa einkunnir drengja hækkað, og það er ánægjulegt.

 

9) Hefur formaður skólanefndar einhverja skoðun á skólabúningum í Grunnskólum Árborgar, eigum við að taka þá upp eða ekki ?

 

Í sjálfu sér hef ég enga sérstaka skoðun á því, á vinnustöðum þar sem er einkennisfatnaður hefur starfsfólk orð á því að það spari peninga í fatakaupum. Ég held í sjálfu sér að það gæti verið gott að hafa sérstakan fatnað þá yrði örugglega minna um samanburð á milli barna í klæðaburði og allir væru jafnir.

 

10) Hvað með heitar máltíðir í skólunum fyrir börnin, hvernig stendur það mál og hvenær verður það orðið þannig að öll börn fái heitan mat í hádeginu alla skóladaga ?

 

Þetta er eitt af þessum málum sem mikilvægt er að verði að veruleika sem allra fyrst, á þessu er tekið í skólastefnunni og hún er markmið til fimm ár í skólamálum, þannig að ég get nú ekki nefnt dag eða mánuð, en þetta er ofarlega á lista okkar um forgangsmál í skólunum enda er sérstaklega tekið á þessu máli í samstarfssamningi meirihlutans. Skólamáltíðir alla daga vikunar verða vonandi að veruleika á þessu kjörtímabili, við erum að láta embættismenn okkar kanna hvernig þetta er unnið í öðrum sveitafélögum og hvað þetta mun kosta foreldra og sveitarfélagið.

 

11) Hverju mun Suðurbyggðaskóli á Selfossi breyta fyrir skólasamfélagið ?

 

Þegar nýr skóli verður tekinn í notkun næsta haust verður stigið stórt skref fram á veginn í skólamálum í sveitafélaginu. Með þessum skóla verður margra ára gamall draumur að veruleika, og við getum öll horft fram á vegin bjartsýnni en áður. Við munum sjá fækkun í Vallaskóla með tímanum og aðstæður þar verða betri.

Þessi skóli kemur til með að leggja áherslu á opið skólastarf sem gefur nemendum og starfsfólki mikla möguleika.

12) Hefur verið ákveðið hvaða bekkir flytjast yfir í Suðurbyggðaskóla og hvað þarf að ráða margt nýtt starfsfólk í skólann ?

 

Já það er ákveðið hvaða bekkir flytjast og nú er verið að vinna undirbúningsvinnu af deildarstjóra grunnskólans og starfsmönnum Vallaskóla. Fram undan eru fundir með foreldrum þar sem farið verður yfir málin, þessir flutningar verða unnir í samstarfi foreldra. Við höfum auglýst eftir skólastjóra við skólann og hvað varðar annað starfsfólk og fjölda þess þá verður það unnið af skólastjóranum ásamt deildarstjóra grunnskólans.

 

13) Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri ?

 

Eitt af þeim atriðum sem ég hef haft mikinn áhuga á að efla í grunnskólunum er tónlistarlíf, það er mitt hjartans mál, ég er sjálf alin upp í tónlistarlegu uppeldi og hef alið mína drengi upp í því. Ég tel að tónlistaruppeldi sé jafn mikilvægt og að stunda íþróttir. Við leggjum sérstaka áherslu að þessu sinni á tónlistarkennslu í skólastefnunni, meðal annar með það í huga að ráða til okkar tónmenntakennara sem okkur hefur því miður ekki tekist á síðustu árum. Ég vil gjarnan sjá að við grunnskólana verði starfandi tónmenntakennarar á næsta skólaári og að tónlistarlíf blómstri.

Meirihluti bæjarstjórnar hefur lagt mikla áherslu á að vera í góðu sambandi við íbúana eins og íbúðaþingin sem voru nýlega sýndu, þar gátu íbúar tjáð sig um öll þau mál sem varða sveitarfélagið. Eins höfum við unnið að öllu sem viðkemur grunnskólunum í nánu samstarfi við starfsfólkið okkar og komum til með að gera það til framtíðar. Samvinna, samstarf og samráð er aðalsmerki meirihluta bæjarstjórnar Árborgar.